Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) var einhuga að baki þeirri ákvörðun að hækka breytilega óverðtryggða vexti um 20 punkta og segir varaformaður stjórnar að vegið sé að heiðri allra stjórnarmanna með „innáskiptingu“ VR. Formaður stéttarfélagsins hafi haft í hótunum við stjórnarmenn skipaða af því og slík skuggastjórnun gangi ekki. Fjármálaeftirlitið hljóti að taka málið til skoðunar.

Fulltrúaráð VR afturkallaði í gær umboð stjórnarmanna sinna í LV. Stjórnin telur átta manns og er helmingur þeirra tilnefndur af VR en hinn af atvinnurekendum. Var það gert vegna algjörs trúnaðarbrests, að mati stjórnar félagsins, eftir að stjórnin tók ákvörðun um áðurnefnda vaxtahækkun. Fjórir nýir fulltrúar voru skipaðir í stjórnina „til bráðabirgða“.

„Það er eitt að vera bakland og það er annað að gera aðför að stjórninni. Mér sýnist sjóðurinn vera kominn með mjög virkan skuggastjórnanda sem gengur að mínu mati alltof langt,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður stjórnar LV og formaður Samtaka iðnaðarins og Landssamtaka lífeyrissjóða. Hún var jafnframt formaður stjórnar sjóðsins áður en fulltrúar atvinnurekenda og VR skiptast á að veita sjóðnum formennsku. Í tilvitnuðum ummælum vísar hún til Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, sem reglulega hefur gagnrýnt lífeyrissjóði landsins.

Guðrún segir að það sé fjarri sanni að umrædd vaxtahækkun hafi verið geðþóttaákvörðun. Vextir hafi verið lækkaðir á einni tegund lána um 20 punkta en hækkaðir á öðrum en vextir sjóðsins eru með þeim allra lægstu sem standa til boða á húsnæðislánamarkaði.

Þeir sem sitja í stjórnum, hvort sem það er í stjórn lífeyrissjóða, skráðra eða óskráðra fyrirtækja, bera umboðsskyldu gagnvart hluthöfum. Stjórnum og þar með stjórnarmönnum beri að vera sjálfstæðar í ákvörðunum sínum og störfum.

Sjá einnig: FME finnur að framgöngu VR

„Í marga mánuði hefur formaður VR haft í hótunum við þá stjórnarmenn sem VR skipar og hótað að henda þeim út ef þeir gera ekki hitt eða þetta,“ segir Guðrún og ítrekar að slíkt gangi ekki. Þá virðist henni sem að Ragnar Þór falli hér á eigin bragði.

„Eftir því sem ég hef heyrt var stjórnarfundur VR á þriðjudag afar einkennilegur, ekki lýðræðislegur og buið að ákveða niðurstöðu fyrir fund. Formaðurinn hefur gagnrýnt ákvarðanir sem honum þykja vera teknar í lokuðum bakherbergjum en grípur nú sjálfur til sömu meðala,“ segir Guðrún.

Gengur ekki að 700 milljarða sjóður lúti duttlungum skuggastjórnanda

Guðrún ítrekar að í LV séu 170 þúsund sjóðsfélagar og að stjórnin vinni ávallt að þeirra hagsmunum. Innan við 4.000 séu með lán sem bera breytilega verðtryggða vexti en þeir eru þrætueplið í málinu.

„Okkur ber hins vegar að gæta ávöxtunar á iðgjöldum 170 þúsund sjóðsfélaga eins og áður sagði. Við verðum að gæta þess að fólk fái lífeyrinn sinn til baka þegar starfsævinnu lýkur. Aðalhlutverk okkar er að taka á móti iðgjaldagreiðslum, ávaxta þær og greiða síðan út lífeyri. Ragnar Þór kýs að taka þessa vexti, breytilega vexti verðtryggðra lána, út fyrir sviga og gera að hápólitísku máli og ýjar að því að með þessu séum við að klúðra lífskjarasamningunum. Þar er ekki aðeins vegið að heiðri stjórnarmanna sem tilnefndir eru að VR heldur stjórnarinnar í heild. Við vorum einhuga að baki þessari ákvörðun og ég ætla ekki að sitja þegjandi undir svona málflutningi," segir Guðrún.

„Það hlýtur að blasa við að þessu máli er hvergi nærri lokið og FME hlýtur að láta sig málið varða sem eftirlitsaðili lífeyrissjóða enda gengur það í berhögg við lög um lífeyrissjóði að sjóður, sem er með yfir 700 milljarða, lúti að hluta til duttlungum skuggatjórnanda úti í bæ,” segir Guðrún. Ekki liggi fyrir hverjir eftirmálar ákvörðunar fulltrúaráðs VR verða en tíminn einn geti leitt það í ljós.