*

laugardagur, 18. janúar 2020
Innlent 21. ágúst 2018 11:06

FME hyggst ekki sekta GAMMA

Fjármálaeftirlitið hefur nú tekið þá ákvörðun að það ætli ekki að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtækið til að gæta meðalhófs.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar Fjármálaeftirlitsins eru í Turninum, Höfðatorgi.
Haraldur Guðjónsson

Í febrúar síðastliðnum hóf Fjármálaeftirlitið að athuga tilkynningar GAMMA Capital Management hf. til eftirlitsins um hreinar skortstöður í hlutabréfum. Fjármálaeftirlitið hefur nú tekið þá ákvörðun að það ætli ekki að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtækið til að gæta meðalhófs. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu FME.

Samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um hreinar skortstöður ber fyrirtækjum að tilkynna þær þegar hlutfallið jafngildir 0,5% af útgefnu hlutafé í viðkomandi félagi og hvert 0,1% umfram það. 

Fjármálaeftirlitinu er heimilt að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ákvæðum reglugerðarinnar hvort sem það er af ásetningi eða gáleysi.

Athugun Fjármálaeftirlitsins leiddi í ljós að á tímabilinu 7. júlí 2017 til og með 4. ágúst 2017 hefði GAMMA í fjórum tilvikum borið að senda eftirlitinu tilkynningar um verulega hreina skortstöðu í N1 hf.

Í þremur tilvikanna barst tilkynning alls ekki og í einu tilvikanna barst tilkynning tveimur dögum of seint. GAMMA gaf þá skýringu að vanhöld á tilkynningum mætti rekja til þess að vörsluaðili félagsins hefði ranglega skráð nafnverð heildarhlutafjár viðkomandi félags, N1 hf. Fjármálaeftirlitið komst að þeirri niðurstöðu, með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, að nýta ekki heimild til að leggja á stjórnvaldssekt vegna brotanna.

Til stuðnings ákvörðun sinni vísaði Fjármálaeftirlitið í lög sem tóku gildi 1. júlí 2017 og voru innleiddar reglur um skortsölu og skuldatryggingar sem ekki höfðu áður þekkst í íslenskri löggjöf og að umrædd brot GAMMA áttu sér stað á fyrstu vikum eftir gildistöku laganna.