Fjármálaeftirlitið keypti í september tvo fundarstóla fyrir skrifstofu Unnar Gunnarsdóttur forstjóra stofnunarinnar sem kostuðu samtals 792 þúsund krónur. Stólarnir eru þekkt hönnunarvara sem heitir Svanurinn.

Upplýsingafulltrúi Fjármálaeftirlitsins segir í samtali við Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins, að stólarnir séu síðasti liðurinnn í 66 milljóna króna endurnýjun á húsbúnaði sem hófst árið 2011 þegar ríkisstofnunin flutti í nýtt húsnæði að Katrínartúni 2. „Þessir stólar á skrifstofu forstjóra eru þeir einu þessarar gerðar hér í Fjármálaeftirlitinu,“ segir Sigurður G. Valgeirsson upplýsingafulltrúi FME.

Í svari stofnunarinnar við fyrirspurn Markaðarins segir að 9,4 milljónir króna af heildarkostnaðinum hafi farið í kaup á nýjum húsgögnum fyrir ellefu einkaskrifstofur stjórnenda Fjármálaeftirlitsins, eða um 857 þúsund krónur á hverja skrifstofu.