Nokkuð hefur verið deilt um og margar meiningar verið um fall Straums í mars 2009. Rétt er að geta þess að í október 2008 leituðu allir viðskiptabankarnir að fyrra bragði til Fjármálaeftirlitsins (FME) og báðu það um að taka yfir starfsemi bankanna. Í tilfelli Straums var því öfugt farið enda var að FME sem tók yfir starfsemi bankans snemma morguns þann 9. mars 2009.

Í nýlegu uppgjöri skilanefndar bankans kemur fram að hann eigi um 60% upp í kröfur. Aðspurður um þetta segir Björgólfur Thor að málið í heild sé mjög skrýtið og að hann sé enn afar ósáttur við það hvernig Straumur hafi verið „keyrður niður“ eins og hann kemst að orði. „Við vorum með mjög sterkan efnahagsreikning en þurftum aðstoð með lausafé. Við höfðum í um tvö ár reynt að fá gengi bankans skráð í evrum til að komast út úr íslensku krónunni og laða frekar að erlenda fjárfesta til að standa með bankanum við aðstæður sem þarna höfðu skapast. Sú heimild var af undarlegum pólitískum ástæðum aldrei veitt,“ segir Björgólfur Thor.

„Þegar þarna var komið sögu hafði fjármálaráðuneytið lýst vilja til að koma að þessu, ráðuneytið taldi að það myndi styrkja hagkerfið ef Straumur héldist öflugur. Við vorum í sambandi við kröfuhafa sem voru tilbúnir til að vinna með okkur í þessu. Kröfuhafar báðu um að ég legði fram aukið hlutafé, sem ég gerði með því að leggja fram nánast allt það reiðufé sem ég átti viku áður en bankinn var tekinn yfir. Við gerðum allt sem við sögðumst ætla að gera. Seðlabankinn var búinn að gefa ákveðið vilyrði fyrir þessu öllu saman.“

-Nánar í Viðskiptablaðinu