Eftir athugun Fjármálaeftirlitsins á hlutafjárútboði sem auglýst er á vefsíðunni hluthafi.com krafðist stofnunin þess í erindi til forsvarsmanna hennar að heimasíðunni yrði lokað. Á síðunni kemur fram að óskað sé eftir hlutafjárloforði a.m.k. tíu til tuttugu þúsund hluthafa í þeim tilgangi að endurreisa flugfélagið WOW eða stofna nýtt lággjaldaflugfélag.

Telur Fjármálaeftirlitið að áskriftarsöfnunin félli undir almennt útboð verðbréfa samkvæmt lögum og því hafi áður þurft að gefa út lögbundna lýsingu. Því hafi stofnunin sent erindi þar sem gerð var krafa um að síðunni yrði lokað því hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um verðbréfaviðskipti, m.a. því ekki hafi verið gefin út slík lýsing.

Í kjölfar þessa hafa forsvarsmenn hluthafi.com breytt fyrirkomulagi áskriftarsöfnunarinnar á þann hátt að nú er miðað við skráningu fyrir hlutaskírteini í einkahlutafélagi sem fellur ekki undir lög um verðbréfaviðskipti segir stofnunin.

Loks varar stofnunin við að almennir fjárfestar njóti ekki sömu verndar vegna kaupa í einkahlutafélagi og þegar þeir taki þátt í almennu hlutafjárútboði. Á heimasíðunni hluthafi.com kemur fram að þeir sem að síðunni standi hafi engin tengsl við Skúla Mogensen stofnanda Wow air eða félagið á nokkurn hátt. Fram hefur komið í fréttum að aðstandendur síðunnar séu þeir Guðmundur Yngvason verkefnastjóri hjá Sólhúsum en umsjónarmaður hennar er Friðrik Atli Guðmundsson.