Fjármálaeftirlitið (FME) krefst þess að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) hækki iðgjald um fjögur prósentustig, úr 15,5% í 19,5%. Krafan er sett fram til að heildarstaða A-deildar sjóðsins, þangað sem 79,3% af iðgjaldagreiðslum renna, verði í jafnvægi. Þetta á að gerast við fyrsta tækifæri þó ekki síðar en 15. júlí í sumar.

Fari stjórn LSR að tilmælum FME þýðir þetta að ríki og sveitarfélög þurfa að borga fjögur prósent til viðbótar í mótframlag með starfsmönnum sem greiða í LSR. Miðað við iðgjaldagreiðslur í fyrra jafngildir það fjögurra milljarða króna framlagi árlega. Í fyrra voru heildariðgjöld til A-deildar 14,6 milljarðar en verða 18,4 milljarðar króna gangi þetta eftir.

Hækka verður framlag ríkisins

Taka verður fram að þessi aukni kostnaður - til að LSR geti mætt skuldbindingum sínum - fellur á hið opinbera. Í lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins segir að ef iðgjald sjóðsfélaga og atvinnurekenda „dugi ekki til greiðslu á skuldbindingum sjóðsins skal stjórn sjóðsins hækka framlag launagreiðenda..." Meðal annars á þessu byggir FME skoðun sína að stjórn lífeyrissjóðsins beri að hækka iðgjöldin.

FME tilkynnti stjórn LSR formlega um niðurstöðu sína með bréfi 19. apríl sl.  Í umfjöllun FME um stöðu LSR segir að eftirlitið fallist ekki á þá túlkun stjórnar LSR, í árskýrslu fyrir árið 2009, að sjóðnum sé heimilt að vera með 10% til 15% mun á eignum og skuldbindingum. Þvert á móti þurfi staðan að vera í jafnvægi.

Hallinn nemur tæpum 50 milljörðum kr.

Í ársskýrslu LSR fyrir árið 2010 kemur fram að heildartryggingafræðileg staða A-deildar LSR, þ.e. áfallin staða að viðbættri framtíðarstöðu, hafi verið neikvæð um 12% eða 47,4 milljarða króna árið 2010.

Þetta álit FME kristallar þau sjónarmið sem voru uppi um jöfnun lífeyrisréttinda við gerð kjarasamninga. Opinberir starfsmenn sem greiða til LSR er tryggt 3,5% raunávöxtun á sinn ellilífeyri. Nái sjóðurinn ekki að ávaxta peningana á þessum kjörum myndast skekkja sem verður að bæta upp með öðrum hætti. Réttindin verða ekki skert nema með breytingum á lögum. Í stað þess verður ríkið að hlaupa undir bagga og hækka sínar greiðslur til LSR eins og FME fer núna fram á.

Tvöfalt högg fyrir almennt launafólk

Þessu er öðruvísi farið hjá fólki sem er á almenna vinnumarkaðnum. Nái þeirra lífeyrissjóður ekki nægilega góðum árangri í ávöxtun fjárins þarf að skerða lífeyrisgreiðslur svo jafnvægi náist á milli eignaliða og lífeyrisskuldbindinga. Þess vegna hefur verið gagnrýnt að launafólk sem ekki vinnur hjá ríkinu þarf í mörgum tilfellum að taka fyrst á sig skerðingu lífeyrisréttinda og síðan að bæta LSR upp ófullnægjandi ávöxtun í gegnum skattkerfið.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag og má nálgast í slánni hér að ofan undir tölublöð.