Persónuvernd segir Fjármálaeftirlitið krefjast of víðtækra persónulegra upplýsinga þegar ganga á úr skugga um fjárhagslegt sjálfstæði stjórnenda fjármálafyrirtækja. Þetta kemur fram í úrskurði persónuverndar frá 24. ágúst síðastliðnum. Þar segir að fjármálaeftirlitið þurfi að afmarka kröfur sem gerðar eru til stjórnenda fjármálafyrirtækja.

Ástæða þess að Persónuvernd tók málið fyrir er að ónafngreind kona í stjórn fjármálafyrirtækis sætti sig ekki við kröfur FME um upplýsingar um aðstæður hennar og manns hennar, bæði hvað varðaði fjárhag þeirra og fjölskylduaðstæður.

Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag en þar segir að meðal þeirra upplýsinga sem stjórnendur þurfi að veita séu upplýsingar um eignir, þar á meðal fasteignir, bifreiðar, innlendar og erlendar innistæður, skráð og óskráð hluta- og skuldabréf og hlutdeildarskírteini lífeyrissjóða. Einnig upplýsingar um skuldir, allt frá námslánum til greiðslukortaskulda auk árstekna eftir skatta, þar á meðal fjármagnstekjur og tekjur maka. Þá er enn ekki allt talið.

Úrskurð Persónuverndar má nálgast hér .