Fjármálaeftirlitið (FME) hefur gert fimm athugasemdir við framkvæmd virðismats útlána hjá Arion Banka, en eftirlitið framkvæmdi vettvangsathugun á virðismatsaðferðir bankans í febrúar og mars síðastliðinn. FME fer jafnframt fram á bankinn gerir úrbætur í samræmi við athugasemdirnar.

Greint er frá þessu í frétt á vef FME þar sem fjallað er um niðurstöður athugunarinnar en stofnunin gerði ekki athugasemd við bókfært virði útlána í úrtakinu.

Hins vegar gerði eftirlitið eftirfarandi athugasemdir við framkvæmda virðismats útlána í úrtakinu.

- Tryggingaskráningarkerfi bankans endurspeglaði í nokkrum tilvikum ekki stöðu viðskiptamanna með fullnægjandi hætti.

- Virðismatsferli bankans var ekki fylgt nákvæmlega í tilviki eins viðskiptamanns.

- Óvissa var um virði trygginga vegna útlána til eins viðskiptamanns og aðila honum tengdum vegna þess að bankinn hafði ekki tekið tillit til virðishækkana tiltekinna trygginga.

- Skilyrðum fyrir lánveitingum til tveggja viðskiptamanna hafði ekki verið fullnægt að öllu leyti.

- Misbrestur var á flokkun lánveitinga til eins viðskiptamanns í lánasafnsskýrslu Fjármálaeftirlitsins

„Til að geta lagt mat á virðismatsaðferðir bankans tók Fjármálaeftirlitið úrtak útlána til fimm viðskiptamanna bankans og aðila tengdum þeim og yfirfór niðurstöður virðismats bankans með sérstakri áherslu á bókfært virði skuldbindinganna miðað við 31. desember 2018. Auk þess var skoðuð framkvæmd virðismats útlána í úrtaki sem snéri að verklagi og meðhöndlun gagna, s.s. skráningu gagna og skjalavistunar, fylgni við innri verklagsreglur og flokkun í lánasafnsskýrslu Fjármálaeftirlitsins (LPA-skýrsla),“ segir m.a. á vef Fjármálaeftirlitsins.