Fjármálaeftirlitið hefur gefið út yfirlýsingu þess efnis að það myndi ekki skila stofnuninni viðbótarupplýsingum og hefði óverulega hagsmuni í för með sér að skilgreina Kviku banka og VÍS sem fjármálasamsteypu. Vísar eftirlitið í að VÍS hafi á síðasta ári eignast virkan eignarhlut í Kviku og að bankinn sé sem stendur hlutdeildarfélag VÍS.

Það sé svo uppá Fjármálaeftirlitið komið að meta það hvort það þýði að fyrirtækin teljist til svokallaðrar fjármálasamsteypu sem viðbótareftirlit er þá haft með. VÍS hefur hins vegar byrjað að draga úr eignarhlut sínum í Kviku að því er Fréttablaðið greinir frá í dag.

Síðan bankinn var skráður á First North markaðinn 16. mars síðastliðinn hefur tryggingafélagið selt eignarhlut fyrir andvirði 215 milljóna króna í bankanum. Er um að ræða 1,4% hlutafjár í bankanum, en í janúar 2017 hafði VÍS keypt 22% hlut fyrir 1.655 milljónir króna á genginu 5,4 krónur á hlut.

Síðan þá hefur hlutabréfaverð í bankanum hækkað um liðlega 50%, en við lokun markaða í gær nam verðið 8,25 krónum og er markaðsvirði eignarhlutar VÍS í Kviku nú um 3,3 milljarðar króna.