Stjórn Fjármálaeftirlitsins ákvað á fundi sínum þann 11. febrúar sl. að leggja stjórnvaldssekt sem nemur þremur milljónum króna á Kópavogsbæ vegna brots á lögum um verðbréfaviðskipti. Tilkynning um sektina var birt á vef FME í dag.

Fjármálaeftirlitið sektaði Kópavogsbæ vegna brots gegn 1. mgr. 122 gr. laga um verðbréfaviðskipti fyrir að hafa ekki birt innherjaupplýsingar, sem fólust í tillögu sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundi hinn 14. janúar 2014, eins fljótt og auðið er og á jafnræðisgrundvelli.

122. gr. laga um verðbréfaviðskipti segir:

Útgefanda fjármálagerninga, sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF), ber að tilkynna þegar í stað allar þær innherjaupplýsingar sem varða hann til viðkomandi skipulegs verðbréfamarkaðar eða markaðstorgs fjármálagerninga (MTF) þar sem fjármálagerningar hans hafa verið teknir til viðskipta. Skipulegur verðbréfamarkaður eða markaðstorg fjármálagerninga (MTF) skal miðla upplýsingum skv. 1. málsl. í upplýsingakerfi sínu og teljast upplýsingarnar opinberar þegar þeim hefur verið miðlað þaðan.

Umrædd tillaga var samþykkt á fundi bæjarstjórnar þann 14. janúar 2014 klukkan 18:20, en fundi lauk klukkan 20:15. Sama kvöld klukkan 22:54 birtist frétt á vef mbl.is um samþykkt bæjarstjórnar.

Tilkynning um málið var hins vegar ekki birt opinberlega fyrr en klukkan 13:39 næsta dag, en þar stóð m.a. að ákvörðunin gæti hækkað skuldir Kópavogsbæjar um 7-9% frá gildandi áætlunum bæjarins.

Fjármálaeftirlitið taldi að með því að birta ekki upplýsingarnar opinberlega hafi Kópavogsbær brotið gegn ákvæði um upplýsingaskyldu og lagði því ofangreinda stjórnvaldssekt upp á þrjár milljónir króna á bæinn.