FÍB, félag íslenskra bifreiðaeigenda, sendi um helgina áskorun til Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og Fjármálaeftirlitsins til að grípa til aðgerða til að stöðva háar arðgreiðslur tryggingafélaganna. Þar sagði FÍB meðal annars:

„Fjármálaeftirlitið hefur lagt blessun sína yfir það að eigendur tryggingafélaganna tæmi bótasjóðina og stingi þeim í eigin vasa. FÍB hvetur ráðherra til að taka í taumana með því að gefa stjórn Fjármála­eftirlitsins fyrirmæli um að sinna lögbundnu eftirlits- og aðhaldshlutverki sínu. [...]

FÍB bendir á að FME hafi ríkar heimildir til að hlutast til um fjármál og rekstur tryggingafélaganna. FME geti skipað þeim að endurgreiða tryggingatökum eign þeirra í bótasjóðunum eða nota fjármunina til að lækka iðgjöld næstu árin.“

FME hefur nú svarað áskorun FÍB og „leiðrétt missagnir FÍB.“ FME segir að eftirlitið hafi ríkar heimildir til að hlutast til um rekstur en þær ná einungis til þess að gæta að því að rekstur þeirra samræmist lögum, reglum og öðrum viðmiðum sem um starfsemina gilda. FME segir því að það sé rangt að Fjármálaeftirlitið geti „skipað þeim að endurgreiða vátryggingatökum eign þeirra í bótasjóðunum eða nota fjármunina til að lækka iðgjöld næstu árin.“

„Til þess að Fjármálaeftirlitið gæti gefið vátryggingafélögum bein fyrirmæli um ráðstöfun arðs til vátryggingartaka þyrfti skýra og ótvíræða lagaheimild þar að lútandi. Slík lagaheimild er ekki fyrir hendi. Hins vegar má geta þess að ef lágmarkskröfur um gjaldþol eru ekki uppfylltar getur Fjármálaeftirlitið takmarkað ráðstöfun fjármuna, þ. á m. útgreiðslu arðs. Skilyrði beitingar slíkrar heimildar eru ekki fyrir hendi.“

Ekki gætt nægilega að orðsporsáhættu

FME segir dæmi um að vátryggingarfélögin hafi látið misskiling og rangtúlkanir óátaldar og með því ekki gætt nægilega að orðsporsáhættu. Fjármálaeftirlitið telur takmarkaða upplýsingagjöf vátryggingafélaganna gagnvart almenningi og hagsmunaaðilum, vegna fyrirhugaðra arðgreiðslna, vera ámælisverða.

Enginn bótasjóður til

FME bendir á að bótasjóður félaganna sé eign vátryggingartakanna sjálfra. Íslensk vátryggingafélög eru rekin sem hlutafélög og eiga vátryggingartakar því ekki eignir sem félögin nota á móti vátryggingaskuld (bótasjóð) líkt og haldið er fram í umfjölluninni. Verði vátryggingartaki fyrir tjóni kann hann að eiga bótakröfu á hendur vátryggingafélaginu.

Uppsafnaður hagnaður

Fyrirhugaðar arðgreiðslur eru í samræmi við núgildandi lög um vátryggingarstarfsemi. Núna erfrumvarp til breytinga á lögum um vátryggingarstarfsemi til afgreiðslu á Alþingi, svokallað Solvency II frumvarp. „ Ekki er rétt að fyrirhugaðar arðgreiðslur byggist einungis á breyttum reikningsskilum, en með Solvency II er útreikningur vátryggingaskuldar samræmdur á Evrópska efnahagssvæðinu og er sú samræming til að fjárhagsgrundvöllur vátryggingafélaga sé metinn með samræmdum hætti,“ segir eftirlitið.

Það bendir einnig að ekki hafi verið greiddur út arður hjá vátryggingafélögunum á árunum 2009 til 2013 og því er um að ræða uppsafnaðann hagnað sem félögin hafi verið að greiða út á síðustu árum.

Áhersla á vátryggingarrekstur ófullnægjandi

Samkvæmt lögum skulu iðgjöld vera í samræmi við þá áhættu sem í vátryggingum felst og hæfilegan rekstrarkostnað, en Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með þessu. FME gerði tvær athuganir á iðgjaldaákvörðunum vátryggingarfélaganna á árinu 2015 og var m.a. gerðir athugasemdir við iðgjaldaskrá félaganna.

FME segir að miðað við sögulega afkomu kjarnastarfsemi vátryggingarfélaga þá megi ætla að áhersla vátryggingareksturinn hafi verið ófullnægjandi. Afkoman hafi verið háð afkomu fjárfestingarstarfsemi, en FME telur það mikilvægt að grunnreksturinn sé ekki rekinn með tapi.

Mega skipta um félag

FME bendir á í umræðuna um viðskiptahætti vátryggingarfélaganna að neytendum er heimilt að segja upp vátryggingum hvenær sem er og fara til nýs félags, en sá réttur kom til með lagabreytingu í júlí 2015.

„Telji neytendur á vátryggingamarkaði að orðspor vátryggingafélags síns sé slíkt að þeir vilji ekki una viðskiptum við það lengur geta þeir samkvæmt framanrituðu fært vátryggingar sínar annað.“

Að lokum óskar FME félaginu alls hins besta í hagsmunabaráttu sinni.