Persónuvernd hefur lagt mat á heimildaöflun Fjármálaeftirlitsins (FME) vegna mats á hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja. Persónuvernd telur FME heimilt að afla upplýsinganna en eftirlitið þurfa að afmarka með mun skýrari hætti en nú er gert hvaða persónuupplýsingar séu nauðsynlegar vegna mats á fjárhagslegu sjálfstæði framkvæmdastjóra og stjórnarmanna. Í tilkynningu á vefsíðu FME segir að hafin er endurskoðun á reglum umeftirlitsins um framkvæmd hæfismatsins. Vonast er til að vinnunni ljúki á næstu vikum.

FME metur meðal annars fjárhagslegt sjálfstæði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra en hæfisskilyrðum var bætt við með lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um vátryggingastarfsemi árið 2010. Sértakt eyðublað var útbúið innan FME sem beinist að fjárhagslegu sjálfstæði.

„Persónuvernd tók upplýsingaöflun Fjármálaeftirlitsins í þessu sambandi til skoðunar. Mat Persónuverndar var að Fjármálaeftirlitinu væri heimilt að fá og varðveita þær persónuupplýsingar um stjórnarmenn og framkvæmdastjóra sem því væru nauðsynlegar til að leggja mat á fjárhagslegt sjálfstæði viðkomandi. Fjármálaeftirlitið hefði því svigrúm um það hve langt væri gengið við slíka upplýsingaöflun og hversu víðtæk slík athugun þyrfti að vera,“ segir í tilkynningu FME. Ennfremur þurfi að fara að grunnkröfum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

„Fjármálaeftirlitinu bæri því að gæta hófs í upplýsingasöfnun sinni, afla ekki ónauðsynlegra upplýsinga og aðeins þeirra sem gætu haft áhrif á niðurstöðu mats á fjárhagslegu sjálfstæði. Þá skyldi gæta sjónarmiða um sanngirni og vandaða vinnsluhætti en til þess þarf m.a. að tryggja gagnsæi svo menn viti fyrirfram áður en þeir taki við starfi hvaða upplýsingum Fjármálaeftirlitið muni kalla eftir.“