Fjármálaeftirlitið er að meta hvort skipa eigi annan í skilanefnd Landsbankans í stað Lárusar Finnbogasonar sem tilkynnti í vikunni að hann væri hættur. Hann hefur þegar látið af störfum.

Sigurður Valgeirsson, upplýsingafulltrúi FME, segir ekki ljóst hvenær tekin verði ákvörðun um eftirmann Lárusar.

„Þegar ljóst er hvort þörf sé á því [að skipa eftirmann] verður í framhaldinu tekin ákvörðun um það hvort viðkomandi verður formaður nefndarinnar eða hvort einhver hinna nefndarmannanna taki við því starfi."

Fjórir skipa nú skilanefndina eftir að Lárus hætti. Þeir eru samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins allir staddir erlendis þessa dagana til að eiga viðræður við erlenda kröfuhafa.

Stefnt er að því að uppskipting milli nýju og gömlu bankanna verði lokið 17. júlí.