Svokallaðir tvíundar valréttir og mismunasamningar eru að mati Fjármálaeftirlitsins andstæð eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum og venjum í verðbréfaviðskiptum.

Segir stofnunin að umræddir fjármálagerningar séu m.a. áhættusamir og hafi hátt flækjustig. Mismunasamningar fela í sér að veðjað er á ákveðnar verðbreytingar á eignum, án þess að eiga eignina sjálfa. Tvíundarvalréttir fela í sér að veðjað er á að annað hvort einn eða annar atburður gerist, til að mynda að eign verði yfir einhverju lágmarki á tilteknum tímapunkti.

Vísar stofnunin í svokallaða ráðstöfun Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar (ESMA) frá því í lok mars síðastliðnum um verðbréfagjörningana jafnvel þó hún hafi ekki enn eins og það er orðað í tilkynningu FME verið innleidd hér á landi.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um áður , þá hefur evrópska verðbréfamarkaðseftirlitið varað við og lagt bann við hluta þessara fjármálagerninga, þar sem þeir tryggi ekki nægilega öryggi fjárfesta.

Hefur Fjármálaeftirlitið áður sagt að gylliboð um háa vexti í þessum fjármálagerningum hafi höfðað til almennra fjárfesta en auk hás flækjustigs, þá hafi há skuldsetning, í tilfelli mismunasamninga,  orðið til þess að þeir hafa tapað umtalsverðum fjármunum.

Ráðstöfun ESMA felur í sér annars vegar algjört bann við markaðssetningu, dreifingu og sölu á tvíundar valréttum til almennra fjárfesta og hins vegar skorður á markaðssetningu, dreifingu og sölu á mismunasamningum til almennra fjárfesta.

Skorður vegna mismunasamninga felast í hámarks skuldsetningu, reglum um lokun á stöðum ef skuldsetning viðskiptareiknings fer yfir viðmið, vernd við því að viðskiptareikningur fari í neikvæða stöðu, banni við hvatagreiðslum í tengslum við sölu og því að fyrirtæki veiti almennum fjárfestum staðlaðar aðvaranir.