Fjármálaeftirlitið hefur tekið mál Eimskipafélagsins til skoðunar og athugar hvort lög hafi verið brotin. Talsmaður Fjármálaeftirlitsins staðfesti það í samtali við Viðskiptablaðið en vildi ekki tjá sig frekar um málið. Auk þess er Kauphöllin að rannsaka hvort Eimskipafélagið hafi brotið sínar reglur, sem lúta að upplýsingagjöf. Forstjóri Kauphallarinnar staðfesti það í samtali við Viðskiptablaðið.

„Út frá trúverðugleika markaðarins er nauðsynlegt að fara vel í svona mál og ganga úr skugga um hvort eftir öllum reglum hafi verið farið með viðeigandi hætti. Það er mjög mikilvægt að fara vel yfir svona mál," segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar.

Eimskipafélagið tilkynnti í síðustu viku að það hefði afskrifað dótturfélag sitt Innovate - sem það keypti á árunum 2006 og 2007 - með öllu fyrir um 74,1 milljónir evra, eða um 8,8 milljarða króna. Það kom eins og þruma og heiðskíru lofti, því aldrei hafði verið talað um rekstrarvandræði hjá því félagi. Stjórnarformaður skipafélagsins hefur sagt að upplýsingar um erfiða stöðu Innovate hafi ekki borist á borð til stjórnar fyrr en í febrúar, en upplýsti markaðinn ekki strax um málið. Hann hefur einnig sagt að stjórnendur Eimskipafélagsins hljóti að bera heilmikla ábyrgð í málinu.

„Málið er bara í venjulegu ferli hjá okkur," segir Þórður. „Það er beðið um upplýsingar og við leggjum engan dóm á það fyrr en við fáum rök frá útgefandanum fyrir þeim hluta sem að honum snýr. Síðan tökum við ákvörðun í framhaldi af því." Hann segist telja að athugunin muni ekki taka langan tíma; fáar vikur.