*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Innlent 11. október 2018 13:17

FME og Seðlabankinn sameinuð

Vinna er hafin við að sameina Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið. Verðbólgumarkmið áfram meginmarkmið.

Ritstjórn
Már Guðmundsson er seðlabankastjóri Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins hefur ákveðið að hefja endurskoðun lagaumgjarðar um peningastefnu, þjóðhagsvarúð og fjármálaeftirlit, samkvæmt tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Skýrslur sérfræðinga eru sagðar liggja fyrir, sem bregði birtu á ýmis viðfangsefni og tækifæri til úrbóta við framkvæmd peningastefnu og umgjörð þjóðhagsvarúðar og fjármálaeftirlits, nú síðast vinna starfshópa um endurskoðun á ramma peningastefnunnar og endurskoðun laga um fjármálaeftirlit frá því í júní síðastliðnum.

Er þar væntanlega verið að vísa til skýrslu starfshóps um endurmat á peningastefnu, sem ber heitið Framtíð íslenskrar peningastefnu og kom út í júní. Nefndin var skipuð þeim Ásgeiri Jónssyni, dósent og deildarforseta hagfræðideildar HÍ, sem jafnframt var formaður, Ásdísi Kristjánsdóttur forstöðumanni efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, og Illuga Gunnarssyni, fyrrverandi ráðherra og þingmanni.

Nefndin lagði þó ekki til að öll starfsemi fjármálaeftirlitsins færðist yfir til seðlabankans, heldur fyrst og fremst þjóðhags- og eindarvarúðarhlutverk hans. „Ég held það sé algert grundvallaratriði að einn aðili beri ábyrgð á fjármálakerfinu- og þjóðhagsvarúð, ég tel að það sé mikilvægasti lærdómurinn af hruninu, að það sé einn aðili sem taki ábygð á því, en ekki margir. Það er sú tillaga sem hefur komið fram aftur og aftur síðastliðinn áratug,“ segir Ásgeir Jónsson, og bætir við að hann hafi séð fyrir sér að Fjármálaeftirlitið yrði áfram til sem eftirlitsaðili. Hvort sem það verður gert eða stofnanirnar sameinaðar í heild, sé þó aðal málið að eftir sameininguna verði ekki til tvær stofnanir undir einu þaki.

Þá lagði sendinefnd á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nýlega til sameiningu stofnanana tveggja.

Kallar á breytingar
Endurskoðunin er sögð kalla á eftirfarandi breytingar:

  1. breytingar á lögum sem lúta m.a. að peningastefnunni, núverandi verkefnum Seðlabankans og yfirstjórn,
  2. breytingar á lögum sem lúta að fyrirkomulagi þjóðhagsvarúðar,
  3. breytingar á lögum um fjármálaeftirlit,
  4. breytingar sem lúta að varanlegu fyrirkomulagi fjárstreymistækis,
  5. breytingar á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans um verðbólgumarkmið,
  6. breytingar á verklagi í peningastefnunefnd Seðlabankans.

„Meginleiðarljós vinnunnar verður að efla traust, gagnsæi og skilvirkni við yfirstjórn efnahagsmála. Miðað skal við að viðhalda verðbólgumarkmiði sem meginmarkmiði peningastefnunnar og sjálfstæði Seðlabankans og peningastefnunefndar hans til að beita stjórntækjum til að ná því en gera viðeigandi breytingar sem efla traust og auka gagnsæi. Ennfremur skal miðað við að sameina Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið með þeim hætti sem eflir traust og tryggir skilvirkni við framkvæmd þjóðhagsvarúðar og fjármálaeftirlits.

Yfirstjórn þessa verkefnis verður í höndum ráðherranefndar um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins sem í sitja forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra. Á vegum ráðherranefndarinnar starfar verkefnisstjórn um peningastefnu, þjóðhagsvarúð og fjármálaeftirlit, skipuð af forsætisráðherra. Hún er skipuð fulltrúum forsætisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis auk tengiliða frá Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Verkefnisstjórnin skal skila drögum að lagafrumvörpum til ráðherranefndar eigi síðar en 28. febrúar 2019.“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Stikkorð: FME Seðlabanki
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is