Sérstakur saksóknari og settur forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME) undirrituðu fyrir helgi verklagsreglur til grundvallar samstarfi sínu.

Á vef FME kemur fram að reglurnar hafa það markmið að greiða fyrir upplýsingaflæði milli aðila, stuðla að auknum skilningi á verkaskiptingu aðila og koma í veg fyrir að mál verði rannsökuð samtímis á fleiri en einum stað.

Í reglunum er m.a. kveðið á um samráðsfundi þar sem leitast er við að samræma verklag og skilgreiningu þeirra sakaratriða sem mál varða og þar sem skipst er á upplýsingum um stöðu mála og væntanlegar aðgerðir. Þá er einnig fjallað um nánari samvinnu og aðstoð við rannsókn einstakra mála.

Sjá nánar á vef FME.