Fjármálaeftirlitið telur að eignarhlutur TM í Hótel Laxá og dótturfélögum þess samræmist ekki ákvæðum laga um vátryggingarstarfsemi.

Í 1. mgr. 11. gr. laga um vátryggingarstarfsemi segir að vátryggingarfélög megi ekki reka aðra starfsemi en vátryggingarstarfsemi nema annað leiði af ákvæðum 13. gr. laganna, en þar er aðallega veittar undanþágur fyrir hliðarstarfsemi vátryggingarfélaga s.s. rekstur og umsjón með sjóðum er tengjast eða eru hliðstæðir vátryggingastarfsemi.

Tilefni athugunar Fjármálaeftirlitsins var sú að TM átti 50% eignarhlut í Hótel Laxá ehf. og dótturfélögum þess en félögunum er ætlað að standa fyrir rekstri og eignarhaldi Hótel Laxár. Fjármálaeftirlitið taldi TM hafa ráðandi stöðu og slík tengsl við Hótel Laxá ehf. og dótturfélög þess að það leiddi til raunverulegra áhrifa á starfsemi þeirra. Hótel Laxá ehf. og dótturfélög þess stunda ekki vátryggingastarfsemi eða hliðarstarfsemi við hana og í ljósi þess, sem og yfirráða TM í félögunum, taldi Fjármálaeftirlitið að um aðra starfsemi væri að ræða.

FME taldi því að eignarhlutur TM samræmdist ekki ofangreindri 11. gr. laga um vátryggingarstarfsemi. Í ákvörðuninni kemur fram að TM hefur þegar lagt fram áætlun og hafið úrbætur vegna málsins.