Fjármálaeftirlitið (FME) er nú með til rannsóknar átta meint brot gegn lögum um gjaldeyrismál og/eða reglum settum á  grundvelli þeirra.

Þetta kemur fram á vef FME en í gildandi lögum um gjaldeyrismál er FME fengið það verkefni að rannsaka slík mál sem því er tilkynnt um.

Þau mál sem eru til dæmis til skoðunar varða meint brot gegn reglum Seðlabanka Íslands frá því í desember sl. en þeim er meðal annars ætlað að stöðva tímabundið gjaldeyrisútflæði, sem gæti annars leitt til óhóflegrar gengislækkunar krónunnar.

Fram kemur á vef stofnunarinnar að málin eru misjafnlega umfangsmikil og eru komin mislangt á veg í rannsóknarferlinu. FME hefur notið liðsinnis sérfræðinga frá Seðlabanka Íslands sem og annarra sérfræðinga í gjaldeyrismálum við rannsóknir sínar.

Þegar rannsókn Fjármálaeftirlitsins leiðir til þess að grunur um brot er staðfestur getur máli lokið hjá Fjármálaeftirlitinu með stjórnvaldssekt, sátt eða Fjármálaeftirlitið eftir atvikum vísar því til lögreglu, eða sérstaks saksóknara.

Stjórnvaldssektir geta verið lagðar á einstaklinga og lögaðila en þeim getur verið beitt óháð því hvort lögbrot er framið af ásetningi eða gáleysi. Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10 þús. kr. til 20 millj. kr. en sektir lagðar á lögaðila geta numið frá 50 þús. kr. til 75 millj. kr.

Sjá nánar á vef FME.