Rannsóknir Fjármálaeftirlitsins (FME) í kjölfar falls bankanna beinast meðal annars að því að kanna viðskipti með verðbréf og markaðssetningu og fjárfestingu peningamarkaðssjóða.

Þetta kemur fram á mbl.is en fréttin er byggð á upplýsingum frá FME.

Á mbl.is kemur fram að rannsóknir snúa enn fremur að öðrum þáttum en endurskoðunarfyrirtæki sem rannsakað hafa bankanna skiluðu skýrslum sínum til FME skömmu fyrir áramót.

„Einnig hafa utanaðkomandi sérfræðingar [endurskoðunarfyritæki. innsk. blm.] skoðað ákveðna þætti sem snúa m.a. að innri reglum bankanna og lögum og reglum um fjármálafyrirtæki. Upplýsingum vegna þessarar skoðunar hefur verið skilað til Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið mun vinna frekar úr upplýsingunum og meta í kjölfarið hvort tilefni sé til nánari rannsókna eða beitingu úrræða,“ segir í tölvubréfi frá FME við fyrirspurn blaðamanns mbl.is um efnisatriði skýrslna endurskoðunarfyrirtækja um starfsemi bankanna.

Sjá nánar á mbl.is