Fjármálafyrirtækjum ber að halda sérstaka skrá um alla þá sem njóta lánafyrigreiðslu yfir 300 milljónum króna. Þeim ber að senda Fjármálaeftirlitinu (FME) uppfærða skrá, svokallaða skuldbindingarskrá, miðað við hver mánaðarmót með nöfnum og kennitölum þessara viðskiptamanna.

Þetta kemur fram í ársskýrslu FME sem gefin var út í dag. Ákvæði um skuldbindingarskrá voru bætt við lög um fjármálafyrirtæki í júní síðastliðnum. Einnig skulu fjármálafyrirtækin senda upplýsingar um allar lánafyrirgreiðslur vegna aðila sem eru tengdir þeim sem lenda á skuldbindingarskrá.

Segir í ársskýrslunni að FME vinni nú að því að setja upp skuldbindingarskrá í samvinnu við seðlabankann. Reiknað er með að undirbúningsvinnu ljúki fyrir árslok og þá hefjist þróun og innleiðing á kerfinu. Áætlað er að gögn verði farin að berast inn í skuldbindingarskrána á öðrum ársfjórðungi 2011.