Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur metið Salt Pay Co Ltd, sem er með skráð aðsetur Caymaneyjum, hæft til að fara með yfir 50% virkan eignarhlut í Borgun en þetta kemur fram í tilkynningu Seðlabankans í dag.

Þann 7. júlí síðastliðinn tilkynnti Íslandsbanki að hann hefði lokið sölu á 63,5 eignarhlut í Borgun til Salt Pay, sem keypti einnig eignarhlut Eignarhaldsfélagsins Borgunar slf. Salt Pay mun í kjölfar kaupanna fara með 95,9% hlutafjár í Borgun.

Fjármálaeftirlitið leggur mat á hvort sá sem hyggst eignast virkan eignarhlut sé hæfur til að fara með eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs fjármálafyrirtækis.

Sjá einnig: Visa inc. bréfin fylgdu ekki með

Fjármálaeftirlitið komst einnig að þeirri niðurstöðu að félögin Salt Partners Ltd., með skráð aðsetur á Caymaneyjum, og VCK Investment Fund Ltd., með skráð aðsetur á Bahamaeyjum, og Andre Street De Aguiar og Eduardo Cunha Monnerat Solon De Pontes væru hæf til að fara með yfir 50% óbeinan virkan eignarhlut í Borgun hf. Jafnframt var það niðurstaðan að bandaríski sjóðurinn LTS Investments Fund LP. væri hæfur til að fara með allt að 33% óbeinan virkan eignarhlut í Borgun hf.

Mat Fjármálaeftirlitsins grundvallaðist á tilkynningu Salt Pay Co Ltd. og tengdra aðila, fylgiskjölum og ítarlegum upplýsingum sem stofnunin aflaði frá aðilunum. Matið byggði einnig á upplýsingum sem stofnunin aflaði frá erlendu fjármálaeftirliti.