Fjármálaeftirlitið hefur samþykkt kaup Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf. (?Straumur?) á 50% hlut í tékkneska fjárfestingabankanum Wood & Company að því er segir í tilkynningu. Straumur keypti 50% hlut í Wood & Company í júní síðastliðnum með kauprétt að eftirstandandi hlutum eigi síðar en 2011. Kaupin eru enn háð samþykki Seðlabanka Tékklands.

Höfuðstöðvar Wood & Company eru í Prag, höfuðborg Tékklands, en fyrirtækið er einnig með starfsemi í Slóvakíu og Póllandi. Það hefur mesta markaðshlutdeild aðila kauphallarinnar í Prag og er jafnframt aðili að kauphöllunum í Búdapest, Varsjá, Búkarest og Ljúblíana, sem og að kauphöllum Austurríkis og Þýskalands.

Með kaupunum útvíkkar Straumur markaðssvæðið sem bankinn sinnir og eykur hlutfall hreinna vaxta- og þóknunartekna af heildartekjum. Vöruframboð og þjónusta Straums eykst verulega og viðskiptavinir Straums munu auk þess njóta góðs af þeirri markaðsþekkingu og því dreifikerfi sem fylgir umfangsmikilli starfsemi Wood & Company í Mið- og Austur-Evrópu.

Straumur er stærsti fjárfestingarbankinn á Íslandi. Bankinn býður heildstæða, samþættaða fjárfestingarbankaþjónustu, þar með talið markaðsviðskipti, fyrirtækjaráðgjöf, fjármögnun og eignastýringu og eru starfsmenn bankans 336 talsins.


Wood & Company er leiðandi sjálfstæður fjárfestingarbanki í Mið- og Austur-Evrópu sem býður upp á allar gerðir verðbréfaviðskipta,fjárfestingarbankaþjónustu og fyrirtækjaráðgjöf. Hann býður m.a. þjónustu við einkavæðingu stórra stofnana, hlutafjárútboð, markaðsviðskipti, samruna og yfirtökur, fjárfestingarbankaþjónustu og fyrirtækjaráðgjöf til innlendra og erlendra fyrirtækja sem og til innlendra útgefenda og stofnana. Wood & Company er með höfuðstöðvar í Prag og starfsemi í Slóvakíu og Póllandi. Starfsmenn eru 70. Fyrirtækið er m.a. aðili að kauphöllunum í Prag, Vín, Frankfurt, Varsjá, Búkarest, Ljúblíana og Búdapest. Árið 2006 sá fyrirtækið um viðskipti fyrir 24 milljarða bandaríkjadala, var með leiðandi hlut (u.þ.b. 30%) af veltu kauphallarinnar í Prag, og markaðshlutdeild þess í Mið- og Austur-Evrópu var 6,6%. Fyrirtækið hefur átta sinnum fengið viðurkenningu Euromoney fyrir framúrskarandi starfsemi, meðal annars sem besti samstarfsaðilinn í Tékklandi, besta hlutabréfamiðlunin og besta innlenda verðbréfamiðlunin í Tékklandi.