Fjármálaeftirlitið hefur ákveðið að sekta 365 um eina milljón króna vegna brots á lögum um tilkynningaskyldu vegna verðbréfaviðskipta. Hin brotlegu viðskipti áttu sér stað 6. desember á síðasta ári en tilkynnt var um þau daginn eftir.

Samkvæmt lögum ber að tilkynna slík viðskipti samdægurs til FME. Ein milljón króna var álitin hæfileg sekt. Hin brotlegu viðskipti hljóðuðu upp á rúmlega sex milljónir króna að markaðsvirði. „Þetta var ekki mjög stórvægilegt mál og við töldum að þessi sekt væri ansi há miðað við þær fjárhæðir sem um var að tefla, með hliðsjón af því sem við höfðum séð í sambærilegum tilvikum,“ segir Ari Edwald forstjóri 365 í samtali við Viðskiptablaðið.

Ari segir að 365 hafi keypt eigin bréf tvo daga í röð, fyrir lágar fjárhæðir. Fyrir mistök hélt sá sem hélt utan um kaupin að um væri að ræða ein viðskipti; því hann taldi að fyrri viðskiptin hafi ekki farið fram. Báðar færslurnar voru tilkynntar daginn eftir.