Fjármálaeftirlitið hefur sektað Arctica Finance um 72 milljónir króna vegna kaupaukakerfis fyrirtækisins. FME telur arðgreiðslur til svokallaðra B, C og D hlutahafa félagsins, sem jafnframt eru starfsmenn fyrirtækisins frá 2012 til 2017, ekki hafa staðist lög.

Arctica Finance segir í tilkynningu að fyrirtækið hyggist höfðar ógildingarmál vegna ákvörðunar FME. Þá segir Arctica að FME hafi verið upplýst um eignarhald fyrirtækisins arðgreiðslustefnu og útgreiddan arð allt frá stofnun þess árið 2009, án þess að FME gerði athugasemdir.

Arðgreiðslufyrirkomulag Arctica Finance hafi verið sett á laggirnar áður en lög og reglur tengd kaupaukum hafi verið sett og því ekki tilgangur fyrirkomulagsins að sniðganga þau ákvæði.

„Arðgreiðslur til hluthafa samkvæmt fyrirfram ákveðinni arðgreiðslustefnu eru á engan hátt tengdar vinnuframlagi einstakra starfsmanna og geta að mati Arctica ekki talist kaupaukagreiðslur í skilningi laga um fjármálafyrirtæki, líkt og FME heldur fram í ákvörðun sinni,“ segir enn fremur í tilkynningu frá Arctica.

Samkvæmt reglum um kaupaukakerfi mega kaupaukar til starfsmanna fjármálafyrirtækja ekki nema umfram 25% af árslaunum og skal fresta greiðslu að minnsta kosti 40% þeirra um 3 ár. Í úrskurði FME kemur fram að við ákvörðun sektarfjárhæðar hafi verið horft til þess að brotin hafi náð yfir sex ára tímabil, að stór hluti starfsmanna hafi notið það sem FME telur vera kaupauka og þeir hafi meðal annars verið bundnir við árangur þeirrar deildar sem viðkomandi starfsmaður starfaði. Þá hafi greiðslurnar í sumum tilvikum verið margföld föst laun viðkomandi starfsmanns og auk þess að regluverði félagsins hafi einnig notið umræddra kaupauka.