Hinn 18. nóvember 2015 tók stjórn Fjármálaeftirlitsins þá ákvörðun að leggja stjórnvaldssekt að fjárhæð 30.000.000 króna á Arion banka fyrir að hafa hinn 24. febrúar 2014 selt hlutabréf sem bankinn átti í Högum hf. á sama tíma og bankinn bjó yfir innherjaupplýsingum sem vörðuðu Haga hf.

Málsatvik eru þau að þann 20. febrúar 2014 óskaði hluthafi í Högum hf. eftir því við Arion banka að bankinn leitaði að kaupendum að 3-6% hlut í félaginu, en um var að ræða hluthafa sem var fjárhagslega tengdur fruminnherjum í Högum hf. Ekki er tekið fram í ákvörðun FME hvaða hluthafi þetta var, en gera má ráð fyrir því að það hafi verið Hagamelur ehf. , félag Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar.

Í kjölfar beiðni viðskiptavinarins hafði deild markaðsviðskipta hjá Arion banka samband við lífeyrissjóði í leit að kauptilboðum. Brátt mun hafa komið í ljós að talsverð eftirspurn var fyrir hendi og ákvað deild markaðsviðskipta þá að bjóða öðrum aðilum, sem og Arion banka sjálfum, að selja hluti á sama gengi. Á forviðskiptatímabilinu 24. febrúar 2014 tilkynnti Arion banki til Kauphallarinnar viðskipti með hluti í Högum hf. Síðar sama dag bárust flöggunartilkynningar , m.a. frá Arion banka, þar sem greint var frá sölu Arion banka á hlutum í Högum hf. Öll viðskiptin voru á genginu 42 krónur á hlut.

Fjármálaeftirlitið taldi upplýsingarnar um fyrirhugaða sölu fjárhagslega tengds aðila á stórum hlut í Högum hf. vera innherjaupplýsingar. Þær hafi verið nægjanlega tilgreindar og líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð hlutabréfa félagsins ef opinberar væru.

Með því að selja eigin bréf hafi bankinn brotið gegn reglum um innherjaviðskipti.

Segir viðskiptin hafa verið lögleg

Í tilkynningu frá Arion banka segir að bankinn sé sannfærður um að farið hafi verið að lögum í umræddum viðskiptum. Ágallar hafi hins vegar verið á framkvæmdinni þar sem ekki hafi verið farið eftir verklagsreglum bankans í hvívetna hvað varðar rekjanleika samskipta. Afleiðingarnar séu þær að bankinn geti ekki fært fullar sönnur á að rétt hafi verið staðið að málum.

„Arion banki telur að í umræddum viðskiptum, þegar bankinn undir lok febrúar 2014 seldi um 1% í Högum, hafi verið farið að lögum þar sem allir aðilar viðskiptanna hafi búið yfir sömu upplýsingum. Upplýsingarnar sem um ræðir snúa að því að hluthafi sem var fjárhagslega tengdur fruminnherjum í Högum hafði, fyrir milligöngu markaðsviðskipta bankans, selt hlutabréf í félaginu. Afstaða bankans er að ekki geti verið um brot á innherjareglum að ræða þegar aðilar viðskipta hafa sömu upplýsingar og byggist sú afstaða á Evróputilskipuninni sem íslensku verðbréfaviðskiptalögin grundvallast á, lögskýringargögnum, lögfræðiálitum og dómafordæmum frá Evrópudómstólnum. Um þetta hefur ágreiningur bankans við Fjármálaeftirlitið snúist.

Fjármálaeftirlitið lítur svo á að bankinn hafi ekki fært óyggjandi sönnur á að allir aðilar viðskiptanna hafi búið yfir sömu upplýsingum. Á þeim forsendum ákveður eftirlitið að sekta Arion banka vegna brota á lögum um verðbréfaviðskipti.

Það er miður að framkvæmd viðskiptanna, sem áttu sér stað fyrir tæpum tveimur árum, hafi ekki verið eins og best verður á kosið hvað varðar rekjanleika samskipta. Þau fóru t.a.m. að mestu fram í gegnum óhljóðritaða síma. Í kjölfar viðskiptanna hefur verklag innan bankans verið skerpt þannig að alltaf verði unnt að færa sönnur á framkvæmd viðskipta. Arion banki hefur engu að síður þá staðföstu trú að aðilar þessara tilteknu viðskipta hafi verið jafnsettir og að lög um verðbréfaviðskipti hafi ekki verið brotin.

Ekki er fyrir hendi úrskurðarnefnd til að skjóta málinu til en bankinn mun meta lagalega stöðu sína í málinu,“ segir í tilkynningu Arion.