Stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur sektað Derek Lovelock, forstjóra Mosaic Fashions hf., vegna brots á lögum um verðbréfaviðskipti.

Sektin hljóðar upp á eina milljón króna.

FME komst að þeirri niðurstöðu að Lovelock hefði brotið gegn lögunum með því að gefa ekki út flöggunartilkynningu vegna sölu á 50.749.566 hlutum í Mosaic Fashions hf. en við söluna fór eignarhlutur hans úr 6,58% í 4,83%.

Salan fór fram þann 22. júlí 2007 en að sögn FME var ekki gefin út flöggunartilkynning vegna viðskiptanna fyrr en 10. ágúst 2007.

FME vísar máli sínu til stuðnings í umrædd lög þar sem segir að aðila beri að tilkynna til skipulegs verðbréfamarkaðar og hlutafélags þegar í stað m.a. þegar hann lækkaði niður fyrir „verulegan" hlut.