Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) hefur sektað gjaldeyrisskiptastöðina FX Iceland um 2,7 milljónir króna vegna annmarka við framkvæmd aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. FME og FX Iceland gerðu með sér samkomulag að ljúka málinu með sátt, að því er kemur fram í tilkynningu eftirlitsins.

FX Iceland opnaði gjaldeyrisskiptastöð á Hafnartorgi í byrjun árs 2020. Eigendur og stofnendur félagsins eru hjónin Bergsveinn Sampsted, fyrrverandi framkvæmdastjóri kortaútgáfu Valitor, og konan hans, Hrönn Sveinsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Sýnar. Félagið fékk starfsleyfi frá FME í júní 2019.

Sjá einnig: Seðlar ódýrari en kort erlendis

Í nóvember 2020 hóf Fjármálaeftirlitið vettvangsathugun hjá FX Iceland, þar sem tekið var úrtak 20 stærstu viðskiptavina félagsins.

„Í ljós komu annmarkar sem snéru að aðgerðum málsaðila gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Voru annmarkar taldir vera á flestum þáttum sem teknir voru til skoðunar, m.a. áhættumati málsaðila á rekstri sínum og viðskiptum, framkvæmd áreiðanleikakannana, reglubundnu eftirliti, verkferlum, tilkynningum til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu (SFL) og varðveislu gagna,“ segir í ákvörðun FME.

FX Iceland lýsti því í bréfi til eftirlitsins að gjaldeyrisskiptastöðin hafi einungis verið starfrækt í tvo mánuði þegar Covid-19 faraldurinn hófst „á sama tíma og [félagið] var að fóta sig í flóknu lagaumhverfi um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka“.

FME segir að eftir vettvangsathugunina hafi FX Iceland gert sér grein fyrir því að áhættumat félagsins, verkferlar og stýringar styddu ekki nægilega vel við starfsemina og hafi í kjölfarið hafi það gripið til aðgerða. Þá óskaði FX Iceland eftir því að ljúka málinu með sátt og féllst á að framkvæma fullnægjandi úrbætur í samræmi við kröfur FME.