Fjármálaeftirlitið hefur lagt 10 milljóna króna stjórnvaldssekt á Icelandair Group vegna þess sem eftirlitið telur vera brot á skyldu um birtingu innherjaupplýsinga, samkvæmt  1. mgr. 122. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Icelandair Group birti hinn 6. desember 2012 tilkynningu í Kauphöllinni um að ákveðið hefði verið að ganga til samninga við Boeing um kaup á nýjum flugvélum. Fjármálaeftirlitið telur að innherjaupplýsingar hafi legið fyrir hinn 3. desember og því hefði Icelandair Group borið að birta tilkynningu þá, eða taka ákvörðun um frestun á birtingu innherjaupplýsinga. Icelandair segir að engin innherjaviðskipti hafi átt sér stað á tímabilinu frá því að Fjármálaeftirlitið taldi að innherjaupplýsingar hefðu verið til staðar, hinn 3. desember, og þar til Icelandair Group birti tilkynningu um viðskiptin, hinn 6. desember.

Stjórnendur Icelandair Group eru ósammála niðurstöðunni, enda hafi engar innherjaupplýsingar legið fyrir fyrr en stjórn félagsins tók ákvörðun um að ganga til samninga við Boeing að morgni 6. desember. Segir Icelandair Group að tilkynning um það hafi verið birt nokkrum mínútum eftir að stjórn lauk fundi sínum. Icelandair Group hyggst skjóta ákvörðun Fjármálaeftirlitsins til dómstóla og fara fram á að ákvörðunin verði ógilt og sektin felld niður.