Fjármálaeftirlitið hefur sektað Icelandair Group um eina milljón króna vegna brota á lögum um verðbréfaviðskipti.

FME segir að félagið hafi brotið lögin með því að tilkynna ekki innan tilskilinna tímamarka um tvenn viðskipti fruminnherja sem urðu með bréf í félaginu.

Fjármálaeftirlitið vísar í lagaákvæðin þar sem segir að útgefanda beri að tilkynna samdægurs til FME þegar fruminnherji hafi tilkynnt honum um viðskipti með fjármálagerninga útgefandans.

„Um var að ræða tvenn viðskipti, annars vegar sölu á 500.000 hlutum á genginu 18,3 á hlut og hins vegar sölu á 500.000 hlutum á genginu 18,1 á hlut. Markaðsvirði viðskiptanna var því samtals kr. 18.200.000. Félaginu barst tilkynning um viðskiptin frá fruminnherjanum eftir lokun markaðar þann 9. júní 2008 en tilkynning frá félaginu til Fjármálaeftirlitsins barst að morgni þess 11. júní 2008," segir í tilkynningu FME um þetta mál.