Fjármálaeftirlitið hefur ákveðið að leggja stjórnvaldssekt að fjárhæð 2.500.000 krónur á Kletta Capital ehf. vegna brota á lögum fjármálafyrirtæki. Í fréttatilkynningu frá eftirlitinu kemur fram að fyrirtækið hafi staðið í starfsleyfisskyldri starfsemi með því að hafa móttekið og miðlað fyrirmælum um einn eða fleiri fjármálagerninga.

Alls var um kaup og sölu á skráðum hlutabréfum og í skammtímasjóðum í 27 skipti að því er félagið segir, en það staðhæfir að ekki hefði verið þóknun greidd fyrir viðskiptin.

Hófu afskipti eftir kynningarfrétt

Fjármálaeftirlitið kallaði eftir upplýsingum um félagið eftir frétt í fylgiriti Fréttablaðsins í ársbyrjun 2017, þar sem meðal annars hafi verið fullyrt að félagið annaðist eignastýringu. Í fréttatilkynningu eftirlitsins er einnig vísað í vefsíðu félagsins þar sem auglýst hafi verið áratugareynsla starfsmanna félagsins á fjármálamörkuðum.

Segir þar að félagið, sem stofnað var í árslok 2016: „hefði verið stofnað með það að leiðarljósi að „bjóða upp á afburða þjónustu fyrir sína viðskiptavini“. Þá var á vefsíðunni ranglega greint frá því að tiltekið verðbréfafyrirtæki og banki væru samstarfsaðilar Kletta Capital ehf.“

Ekki hægt að komast hjá starfsleyfi með umboðum

Fjármálaeftirlitið taldi ekki efni til að fallast á málsástæðu félagsins að þar sem félagið hafi aflað umboða frá viðskiptavinum sínum hafi það mátt veita þjónustu sína án starfsleyfis. „Fjármálaeftirlitið benti á að hvergi í lögum um fjármálafyrirtæki væri að finna ákvæði í þá átt að handhafar umboða til viðskipta væru undanþegnir því að sækja um starfsleyfi ef þeir móttaka og miðla fyrirmælum,“ segir í tilkynningu FME.

„Fengi það auk þess vart staðist að félög gætu komist hjá því að sækja um starfsleyfi með því að afla umboða frá öllum sínum viðskiptavinum. Loks taldi Fjármálaeftirlitið að um leyfisskylda starfsemi væri að ræða, burtséð frá því hvort innheimt hefði verið þóknun fyrir hana eða ekki.“

Taldist til refsiauka að hafa reynslu

Sektarfjárhæðin er sögð byggja á því að um alvarlegt brot á lögum væri að ræða sem geti þýtt að réttarvernd fjárfesta fari þar með forgörðum. „Þá þótti horfa til hækkunar að félagið hafði lagt nokkuð á sig til að kynna þjónustu sína, t.a.m. með því að opna vefsíðu þar sem ýjað var að því að þjónustan væri veitt í samstarfi við þekkta

eftirlitsskylda aðila,“ segir í tilkynningunni sem einnig taldi reynslu forsvarsmanna fyrirtækisins af fjármálastarfsemi auka á alvarleika brotsins.„Loks gekk Fjármálaeftirlitinu erfiðlega að fá gögn og upplýsingar frá félaginu. Til lækkunar kom að umfang hinnar leyfisskyldu starfsemi var lítið og stóð starfsemin yfir í skamman tíma. Þá var um fyrsta brot félagsins að ræða.“