Fjámálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) hefur sektað Kviku banka um 18 milljónir króna fyrir brot gegn ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti í tengslum við sölu og markaðssetningu á skuldabréfaflokknum OSF II 18 01.

Gerði FME bankanum að sök að hafa brotið gegn eftirfarandi ákvæðum verðbréfalaga:

  • 2. mgr. 8. gr. með því að hafa ekki framkvæmt og skjalfest greiningu á hagsmunaárekstrum með fullnægjandi hætti.
  • 1. mgr. 14. gr. með því að hafa ekki veitt viðskiptavinum greinargóðar upplýsingar um fjárfestingarkostinn OSF II 18 01 og að upplýsingar og umfjöllun um fjárfestingarkostinn og aðila tengda honum hafi ekki uppfyllt kröfur um að vera skýrar, sanngjarnar og ekki villandi.
  • 1. mgr. 15. gr. með því að hafa ekki uppfyllt skyldur um öflun upplýsinga og veitingu ráðlegginga við framkvæmd mats á hæfi í tilvikum 30 viðskiptavina.
  • 1. mgr. 21. gr. með því að hafa vanrækt að uppfylla skyldur um flokkun viðskiptavina í fimm tilvikum.

Í bréfi sem Kvika sendi á FME fyrir um ári síðan lýsti bankinn yfir vilja til að ljúka málinu með sátt við eftirlitið. Var málið lagt fyrir fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands í apríl á þessu ári. Taldi nefndin málið upplýst og forsendur til að ljúka málinu með samkomulagi um sátt við Kviku banka.

Taldi FME brot Kviku á fyrrgreindum ákvæðum verðbréfalaga vera gróf. Með hliðsjón af eðli og umfangi brotanna, heildarveltu Kviku miðað við ársreikning fyrir árið 2019 og atvikum málsins að öðru leytt var Kviku boðið að ljúka málinu með sátt um brot og til greiðslu sektar að fjárhæð 18 milljónir króna til ríkissjóðs.