*

þriðjudagur, 19. nóvember 2019
Innlent 30. október 2019 17:59

FME sektar Kviku

Kvika þarf að greiða 3 milljónir í sekt þar sem bankanum láðist að tilkynna hliðarstarfsemi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Kvika banki hf. hefur gert sátt við Fjármálaeftirlitið (FME) um að greiða þrjár milljónir króna í stjórnvaldssekt. Brot Kviku fólst í því að gera FME ekki viðvart um hliðarstarfsemi bankans.

Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki getur starfsemi banka einnig tekið til starfsemi sem er í eðlilegu framhaldi af fjármálaþjónustu fyrirtækisins. Skylt er að tilkynna FME um slíka starfsemi með sérstakri tilkynningu. Að auki er fyrirtæki skylt að skila tvisvar á ári yfirlitsskýrslu um slíka starfsemi, annars vegar í árslok og síðan um mitt ár.

Við yfirferð FME í upphafi árs kom í ljós að á einni slíkri skýrslu Kviku var að finna sjö félög sem FME hafði ekki verið tilkynnt um sérstaklega áður en starfsemi hófst.

„Við ákvörðun sektarfjárhæðar í máli þessu hefur Fjármálaeftirlitið litið til þess að málsaðili lét hjá líða að tilkynna stofnuninni um hliðarstarfsemi í sjö félögum. Þar með var Fjármálaeftirlitinu gert erfiðara um vik með að hafa yfirsýn yfir starfsemi málsaðila og gera, ef tilefni væri til, athugasemd við hliðarstarfsemi hans. Þá er litið til þess að á síðustu fimm árum hefur málsaðili í tvígang gerst brotlegur við ákvæði laga um fjármálafyrirtæki sem lokið var með samkomulagi um sátt,“ segir í tilkynningu FME.

Það horfði á móti til mildunar að um var að ræða hliðarstarfsemi sem uppfyllti skilyrði laga. Með hliðsjón af eðli og umfangi brots, stærðar Kviku og að teknu tilliti til þess að málinu var lokið með sátt þótti sektarfjárhæð hæfilega ákveðin 3 milljónir króna.