Fjármálaeftirlitið hefur sektað eignarhaldsfélagið Teymi um 7,5 milljónir króna fyrir að gera ekki opinberar verðmyndandi upplýsingar í apríl á síðasta ári, er vörðuðu niðurfærslu á verðmæti farsímakerfis í eigu félagsins.

Telur Fjármálaeftirlitið að með því hafi Teymi brotið gegn lögum um verðbréfaviðskipti.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Teymi en þar segir að frá því að þau atvik áttu sér stað er ákvörðun Fjármálaeftirlitsins varðar hefur Teymi verið afskráð úr Kauphöll, fyrrum kröfuhafar félagsins tekið við stjórn þess og nýir stjórnendur verið ráðnir til starfa. Stjórn Teymis telur því að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að beita stjórnvaldssekt vegna umrædds brots kalli því ekki á sérstakar aðgerðir.

Þá kemur fram að núverandi stjórn Teymis mun ekki skjóta ákvörðun Fjármálaeftirlitsins til dómstóla og er málinu því lokið af hálfu félagsins.