Fjármálaeftirlitið hefur lagt stjórnvaldssektir á nokkra einstaklinga upp á eina til 2,1 milljóna króna vegna brota þeirra á lögum um verðbréfaviðskipti. Þessir einstaklingar báru ábyrgð á verðbréfalýsingu félags árið 2008.

Fram kemur um málið á vef FME að verðbréfalýsingarnar hafi ekki geymt upplýsingar um veðsamning þar sem félagið setti að veði verulegan hluta eignasafns síns. Að mati FME voru upplýsingarnar nauðsynlegar fjárfestum til þess að geta metið eignir og skuldir, fjárhagsstöðu, afkomu og framtíðarhorfur félagsins.

Þá segir að við ákvörðun sektarfjárhæðarinnar var litið til alvarleika brotsins, tímalengdar og eftir atvikum fjölda tilvika. Litið var til þess að engin viðskipti voru með umrædd verðbréf á tímabilinu og til óverulegra umsvifa félagsins sem útgefanda á verðbréfamarkaði. Einnig var litið til þess að langur tími er liðinn frá því að brotin voru framin.