Kaupauki starfsmanna vátryggingafélaga má á ársgrundvelli að hámarki nema 25% af árslaunum viðkomandi án kaupauka. Þá skal fresta greiðslu hluta af kaupauka um að lágmarki 3 ár, þannig að unnt sé að taka tillit til sveiflna í viðskiptalífinu og hagkerfinu sem geta haft áhrif á árangur.

Fjármálaeftirlitið (FME) birti í dag nýjar reglur um kaupaukakerfi vátryggingafélaga. Við gerð þeirra var höfð hliðsjón af sambærilegum reglum um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja. Reglurnar mæla fyrir um lækkun, afturköllun eða endurgreiðslu kaupauka þegar mælikvarða um árangur í starfi er ekki náð.

Óskað var eftir umögnum hagsmunaaðila við vinnslu reglnanna. Ákveðið var í kjölfar athugaemda að láta reglurnar ekki gilda um árangurstengdar greiðslur sem veittar eru vátryggingamönnum vegna sölu vátrygginga. Talið er að slíkar greiðslur feli ekki í sér sérstaka áhættu fyrir rekstur vátryggingafélaga.

FME féllst ekki á athugasemdir sem lutu að skilgreiningu á hugtakinu „lykilstarfsmaður“. Jafnframt var ekki fallist á þá afstöðu umsagnaraðila að ekki skyldi taka mið af stöðu á fjármálamörkuðum við árlega endurskoðun reglnanna. „Það er afstaða Fjármálaeftirlitsins að sviptingar á fjármálamarkaði séu til þess fallnar að hafa áhrif á vátryggingamarkaði og þar af leiðandi sé ástæða til að taka tillit til aðstæðna þar við endurskoðun kaupaukakerfis,“ segir í tilkynningu FME.

Reglur FME .