Fjármálaeftirlitið hefur skipað skilanefnd yfir Sparisjóðabankann. Ákvörðun um þetta var tekin á föstudag, en tæpri viku fyrr, þann 21. mars, tók FME ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda bankans til Nýja Kaupþings og Seðlabankans.

Í nýrri ákvörðun FME kemur fram að þann 21. mars hafi ekki verið tekin ákvörðun um skipan skilanefndar fyrir Sparisjóðabankann enda hafi verið gert ráð fyrir að yfirfærsla lána tæki skamman tíma og væri einföld í framkvæmd. Vegna tæknilegra vandkvæða hafi yfirfærsla innlána hins vegar tafist og FME því ákveðið að skipa bankanum skilanefnd.

FME hafði hins þann 21. mars tekið yfir vald hluthafafundar Sparisjóðabankans og sama dag skipað skilanefnd yfir Spron og tekið yfir vald hluthafafundar þess banka.

Í skilanefnd Sparisjóðabankans hafa verið skipuð:

  • Þorvarður Gunnarsson, löggiltur endurskoðandi, formaður
  • Erling Tómasson, löggiltur endurskoðandi
  • Hjördís Edda Harðardóttir, hrl.
  • Jón Ármann Guðjónsson, hdl.
  • Áslaug Björgvinsdóttir, dósent