Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir að FME sé að skoða hvort kæra eiga formlega birtingu og leka lánabókar Kaupþings til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Tekin verði ákvörðun um það í vikunni.

Helgi Magnús Gunnarsson, yfirmaður efnahagsbrotadeildarinnar, segir að málið sé til skoðunar hjá embættinu. „Við vitum af málinu og höfum kynnt okkur það," segir hann.

Efnahagsbrotadeildin taki þó málið ekki formlega upp nema kæra komi frá FME. Samkvæmt lögum hafi FME forræði yfir þeim lagaákvæðum sem það hafi eftirlitsskyldu með.

Málið snýst um leka og birtingu skýrslu með upplýsingum um lán til rúmlega tvö hundruð viðskiptavina Kaupþings. Upplýsingarnar eru aðgengilega á vefsíðunni wikileaks.org.

Málið varðar við brot á þagnarskylduákvæðum íslenskra laga um fjármálafyrirtæki

Gunnar segir að FME hafi látið efnahagsbrotadeildina vita samdægurs af málinu „og þeir hafa staðfest að þeir eru með það til skoðunar," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segir jafnframt málið erfitt viðfangs.

Ónákvæmni gætti í frétt Viðskiptablaðsins um málið á föstudag, en þar sagði að FME hefði falið efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra að fylgja málinu eftir. Hið rétta er að FME hafi upplýst efnahagsbrotadeild um málið, eins og fyrr segir, en hún þarf formlega kæru til að fylgja því eftir.