Fjármálaeftirlitið hefur farið fram á tilteknar upplýsingar sem tengjast sölu Landsbankans á eignarhlut hans í Borgun. Þetta kemur fram í svari Landsbankans við bréfi Bankasýslu ríkisins þar sem svarað er ýmsum fyrirspurnum um söluna.

Þar kemur fram að Landsbankinn hafði áður fengið erindi frá Fjármálaeftirlitinu, nánar tiltekið þann 3. desember 2014, þar sem farið var fram á upplýsingar um söluna en því var svarað þann 9. desember 2014.

Í svari Landsbankans við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um málið segir að bankinn sé að vinna að því að svara beiðni Fjármálaeftirlitsins og að bankinn stefni á að svara henni á mánudag. Þar segir einnig að spurningarnar séu efnislega af sama toga og spurt er um í áðurnefndu bréfi Bankasýslu ríksins.