Fjármálaeftirlitið (FME) vinnur að sérstakri athugun sem snýr m.a. að viðskiptaháttum Dróma. Drómi heldur utan um eignasöfn Spron og Frjálsa fjárfestingarbankans. Í tengslum við athugunina hefur FME óskað eftir frekari upplýsingum frá stærstu lánastofnunum til að unnt verði að leggja mat á það hvort rétt sé staðið að endurútreikningi á gengislánum. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í minniblaði FME til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, birtir bréfið á vefsíðu sinni .

Efnahags- og viðskiptanefnd  óskaði eftir því að fjallað verði um þær heimildir sem FME hefur til að bregðast við aðstæðum eins og þeim þegar fyrirtæki, sem ekki hefur starfsleyfi en hefur rekstur útlánasafns með höndum, gengur lengra gagnvart viðskiptavinum við innheimtu en fjármálafyrirtæki sem hafa starfsleyfi hafa kosið að ganga. Þá var tiltekið að sett yrði fram mat á því hvers konar aðstæður þurfi að vera uppi svo mögulegt teljist að beita þeim.

Frosti segir að af bréfinu megi dæma er FME  að afla upplýsinga um málið en hafi ekki nægar upplýsingar á þessu stigi til að svara spurningu Efnahags- og viðskipanefndar um það hvort Drómi hafi hugsanlega brotið lög.