*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 15. maí 2018 15:57

FME slær á putta Kortaþjónustunnar

FME gerir margvíslegar athugasemdir við eftirlit Kortaþjónustunnar með viðskiptamönnum sínum.

Ritstjórn
Björgvin Skúli Sigurðsson, tók við sem forstjóri Kortaþjónustunnar eftir að eigendaskipti urðu hjá fyrirtækinu.
Haraldur Guðjónsson

Fjármálaeftirlitið (FME) telur Kortaþjónustuna ekki hafa sinnt með eftirliti með viðskiptamönnum sínum líkt og lög um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka kveða á um og hefur krafið fyrirtækið um úrbætur.

„Við tökum þessum athugasemdum mjög alvarlega og það er í algjörum forgangi að laga það sem aflaga hefur farið og við munum leggja áherslu á að klára það á allra næstu vikum,“ segir Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar.

Í athugun FME á verklagi Kortaþjónustunnar í samskiptum við fimm af tuttugu stærstu stærstu erlendu viðskiptamönnum félagsins árið 2016 taldi FME að Kortaþjónustan hefði ekki sýnt fram á að framkvæmd áreiðanleikakannana hafi verið fullnægjandi. FME gerði einnig athugasemd við að í tilviki tveggja viðskiptamanna af fimm, hefði Kortaþjónustan ekki greitt fyrstu greiðslu inn á reikning viðskiptamannsins líkt og lög kveða á um. 

FME gerði jafnframt athugasemdir við framfylgi Kortaþjónustunnar við lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þar hafi Kortaþjónustan ekki fullnægt reglubundnu eftirliti með samningssambandi við viðskiptamenn, né gripið til ráðstafana til að sinna rannsóknarskyldu sinni og mögulegri tilkynningarskyldu vegna viðskipta sem grunur leikur á að rekja megi til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka. Þá hafi Kortaþjónustan ekki séð til þess að starfsmenn fengju fullnægjandi þjálfun í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. 

Auk þess hafi ábyrgðarmaður aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka ekki séð til þess að mótaðar væru samræmdar starfsaðferðir er stuðli að góðri framkvæmd laganna. Þá hafi að innri reglur Kortaþjónustunnar um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka ekki að fullu verið í samræmi við lög.

FME bendir þó á að breytingar hafi orðið á eignarhaldi Kortaþjónustunnar frá því rannsóknin hófst. Kvika og hópur fjárfesta eignaðist Kortaþjónustuna á síðasta ári eftir að Kortaþjónustan lenti í verulegum rekstarerfiðleikum í kjölfar breska flugfélagsins Monarch. Í kjölfarið urðu breytingar á framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Björgvin Skúli var ráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækisinsí byrjun ársins.