Fjármálaeftirlitið hefur ákveðið að stöðva tímabundið viðskipti með skuldabréfaflokk  með auðkenni  FAST-1 12 sem tekinn hefur verið til viðskipta á Nasdaq OMX Iceland hf.

FAST I slhf. sendi í morgun frá sér tilkynningu til Kauphallarinnar og segir Fjármálaeftirlitið, með vísan í þá tilkynningu, að það sé mat Fjármálaeftirlitsins að skuldabréfaflokkurinn uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til töku til viðskipta.

Í tilkynningu frá FAST-1 slhf. til Kauphallarinnar segir að  uppgötvast hafi  þann í fyrradag að ekki hafi verið  staðið  með fullnægjandi  hætti  að  veðsetningu  til  tryggingar á þeim fasteignum  sem  getið  er  til  um  í  skilmálum  útboðslýsingar  vegna útgáfu skuldabréfaflokks  með auðkenni  FAST-1 12 1.

Nánar tiltekið  hafði annars vegar orðið dráttur á þinglýsingu tryggingabréfa og hins vegar hafði láðst að þinglýsa aðilaskiptum að áhvílandi tryggingarbréfum.

Í tilkynningu segir jafnframt að útgefandi  hafi nú þegar brugðist við  og gefið út fullnægjandi tryggingarskjöl sem  móttekin  hafa verið  af  sýslumannsembættinu  til  að  fullnægja umræddum skilyrðum  um  sérstaka  skuldbindingu  samkvæmt  skilmálum  í útboðslýsingu en sýslumannsembættið tekur sér nokkra daga til að skrá inn umrædd veðréttindi.

Þá mun útgefandi tilkynna opinberlega þegar þinglýsingu framangreindra trygginga er lokið og skilmálum útboðslýsingar hefur verið fullnægt.