Fjármálaeftirlitið (FME) vill ekki tjá sig um hvernig fjármögnunarfyrirtækið Lýsing stendur og þá hvort það uppfylli skilyrði um eigið fé að mati stofnunarinnar. FME ber samkvæmt lögum að bregðast við ef fyrirtæki uppfylla ekki skilyrðin. Starfsleyfi, meðal annars til þess að stunda útlánastarfsemi og innheimtu, byggja á því að fyrirtækin uppfylli skilyrði um eigið fé. Að lágmarki þarf það að vera 8%, lögum samkvæmt. Í lok árs 2009 var það 11,2%.

Endurskoðendur Deloitte, Sigurður Heiðar Steindórsson og Birkir Leósson, skrifuðu undir ársreikninginn, í apríl 2010, með fyrirvara um áhrif dóma um lögmæti gengistryggingar lána í krónum á eignasafn fyrirtækisins. Ársreikningi Lýsingar fyrir árið 2009 var skilað til ársreikningaskrár 4. nóvember sl.

Eins og kunnugt er staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms á þann veg að lánasamningur Lýsingar, um gengistryggt lán í krónum, væri ólöglegur. Stór hluti eignasafns byggir á samningum um gengisbundin lán í krónum. Ljóst er því að niðurfærsla á eignasafninu, m.a. á grunni frumvarps efnahags- og viðskiptaráðherra sem nú er til meðferðar í þinginu, mun hafa mikil áhrif á stöðu félagsins.

Gunnar Andersen, forstjóri FME, segist ekki geta tjáð sig um stöðu Lýsingar. FME fylgist náið með stöðu fjármálafyrirtækja, ekki síst vegna áhrifa dóms Hæstaréttar á starfsemi fjármálafyrirtækja. FME geti brugðist við því þegar eiginfjárhlutfall fyrirtækja fer neðan við leyfileg mörk og veiti þá fyrirtækjum frest til þess að koma málum í lag. Í lok árs 2009 voru eignir Lýsingar metnar á 110,8 milljarða króna en skuldir voru 102,4 milljarðar. Eigið fé var því rúmlega átta milljarðar króna í lok árs 2009. Tapið á árinu nam tæplega fimm milljörðum.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .