Vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem nú ríkja á markaði og til þess að stuðla að og viðhalda fjármálastöðugleika hefur Fjármálaeftirlitið (FME) ákveðið að skilgreina skortsölu hlutabréfa tiltekinna útgefenda sem hegðun andstæða viðurkenndri markaðsframkvæmd.

Þetta kemur fram á vef FME.

Þar kemur fram að aðili sem hegðar sér andstætt viðurkenndri markaðsframkvæmd kann að vera fundinn sekur um markaðsmisnotkun samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.

Þannig hefur FME tekið þá ákvörðun að frá og með 7. október 2008 til og með 16. janúar 2009 verði óheimilt að skortselja hlutabréf Glitnis, Kaupþings, Landsbanka Íslands, Straums-Burðaráss, Spron  og Exista, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi, nema seljandi hafi bréfin í sinni vörslu þegar sölutilboð er lagt fram, enda tilkynni viðkomandi án tafar um viðskiptin til FME.

Bannið tekur einnig til allra annarra fjármálagerninga sem hafa sama tilgang og sömu efnahagslegu áhættu og skortsala tilgreindra hlutabréfa og til skortsölu á öðrum fjármálagerningum þar sem verðmæti þeirra ræðst af verði hlutabréfa tilgreindra útgefenda.

Ákvörðunina er hægt að lesa hér.