Fjármálaeftirlitið (FME) hefur orðið við beiðni Avant hf. um að skipa félaginu bráðabirgðastjórn á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki.

Fram kemur á vef FME að samkvæmt ákvæði laganna getur stjórn fjármálafyrirtækis, sem á í þeim fjárhags- og rekstrarerfiðleikum að líkur séu til að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar eða uppfyllt kröfur um lágmark eigin fjár, leitað eftir því við Fjármálaeftirlitið að það taki við ráðum yfir fyrirtækinu. Við þær aðstæður getur Fjármálaeftirlitið skipað fjármálafyrirtækinu bráðabirgðastjórn.

Bráðabirgðastjórnin fer ein með sömu heimildir að lögum og eftir samþykktum Avant hf. og stjórn og hluthafafundur hefði annars haft á hendi. Avant var í eigu Askar Capital en sem kunnugt er var ákveðið að óska eftir slitameðferð á Askar í dag.

Bráðabirgðastjórn Avant hf. skipa Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., formaður, Hulda Rós Rúriksdóttir, hrl. og Ljósbrá H. Baldursdóttir, lögg. Endurskoðandi.