Fjármálaeftirlitið hefur tekið yfir Straum-Burðarás fjárfestingarbanka. Stjórn bankans hefur verið vikið frá störfum og skilanefnd skipuð. Bankinn er lokaður vegna þessa og William Fall forstjóri hefur sagt af sér. Með þessu er Straumur farinn sömu leið og Glitnir, Landsbanki og Kaupþing í byrjun október sl.

Í tilkynningu frá Straumi segir að þrátt fyrir sterkt eiginfjárhlutfall og það að bankanum hafi tekist að semja við lánadrottna sína um framlengingu lána, sé fyrirséð að vegna bágrar lausafjárstöðu geti bankinn ekki haldið áfram reglulegri starfsemi.