Eins og kunnugt er tók Fjármálaeftirlitið (FME) ákvörðun þann 21. mars s.l. um að taka yfir vald hluthafafundar Sparisjóðabanka Íslands hf. (áður Icebank) og ráðstafa tilteknum eignum og skuldum bankans til annarra aðila.

Sama dag tók FME ákvörðun um að taka yfir vald hluthafafundar Spron hf. og skipa skilanefnd fyrir bankann.

Á vef FME kemur fram að það er álit stofnunarinnar að hvorugur bankinn hafi verið fær um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðna tiltekinna reikninga, þeirra viðskiptavina sem þess kröfðust. Því telur FME að samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta hafi  stofnast til greiðsluskyldu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta gagnvart viðskiptavinum bankanna tveggja sem ekki hafa fengið greiddar innstæður sínar.