Fjármálaeftirlitið (FME) vill ekki upplýsa að svo stöddu um hver kostnaður vegna verðmats sem það fól Deloitte að vinna á eignum og skuldum nýju bankanna þriggja var.

FME vill heldur ekki veita upplýsingar um kostnað vegna vinnu ráðgjafafyrirtækisins Oliver Wyman við samhæft endurmat á eignum og skuldum bankanna, sem byggði á niðurstöðu Deloitte.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að sameiginlegur kostnaður vegna þessarar vinnu hlaupi á hundruðum milljóna króna.

Í svari FME við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um málið segir að endanlegur kostnaður liggi ekki fyrir „þar sem hluti af honum fellur á bankana. Fjármálaeftirlitið gefur ekki upp hvað bankarnir greiða.“