„Nefndin hafði aldrei samband við mig. Hún kallaði mig aldrei fyrir og bar engar upplýsingar undir mig,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Hann er afar gagnrýninn á vinnu rannsóknarnefndar Alþingis sem vann skýrslu um Íbúðalánasjóð . Nefndin var skipuð í september árið 2011 og skilaði skýrslu sinni 2. júlí síðastliðinn.

Páll Gunnar var gestur á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun og svaraði þar spurningum sem vörðuðu starf hans sem forstjóri Fjármáleftirlitsins á árunum 1999 og fram á mitt ár 2005 eða um það leyti sem breytingar voru gerðar á útlánum Íbúðalánasjóðs og þegar bankarnir fóru í samkeppni við sjóðinn. Hann tók fram í byrjun fundar að hann komi á eigin forsendum sem fyrrverandi forstjóri til að svara því sem honum fannst aðfinnsluvert í störfum nefndarinnar og hafi komið fram í skýrslu hennar.

FME í bölvaðri stöðu

Páll Gunnar tók fram að FME hafi í forstjóratíð sinni ekki haft eftirlit með Íbúðalánasjóði ekki lengi, aðeins í eitt ár. Hann sagði FME hins vegar bundið í báða fætur og ekki getað básúnað varnaðarorð sín. „FME var í þeirri bölvuðu stöðu að geta ekki tjáð sig um stöðuna. Það dregur úr varnaráhrifum sem ég hef oft verið hugsi um síðan,“ sagði Páll Gunnar sem benti á að eftirlitið hafi notað ársfundi sína til að koma skilaboðum sínum á framfæri. Það hafi verið gert.

M.a. hafi verið vakin athygli á mörgum þáttum sem tengdust rekstri Íbúðalánasjóðs og eins háum áhættuskuldbindingum í bankakerfinu þar sem m.a. hafi komið fram að um 25% skuldbindinga bankanna hafi verið undir einni virkri áhættu. Af þeim sökum hafi verið kallað eftir aðgerðum stjórnvalda og nýir eigendur bankanna verið þvingaðir til að leggja meira til tryggingasjóðs. Stemningin hafi hins vegar verið slík í samfélaginu að fáir lögðu við hlustir. Þvert á móti hafi stjórnvöld stigið inn í þetta umhverfi með ódýrari lánakostum fyrir viðskiptavini Íbúðalánasjóðs. Á sama tíma hafi aðrar reglur gilt um Íbúðalánasjóð og önnur fjármálafyrirtæki, ekki síst þær kvaðir sem snúi að eiginfjárreglum. Fari eiginfjárhlutföll banka og fjármálafyrirtækja undir tilskilið lágmark verði FME að bregðast við. Gerist það hjá Íbúðalánasjóði verði að vekja athygli ráðherra á því.