Vaxtamunur bankanna var að meðaltali 3,5% á árinu 2012, að því er kemur fram í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins, sem kynnt var á ársfundi FME í dag. Þar kemur fram að vaxtamunur íslensku bankanna teljist hár í erlendum samanburði.

Vaxtamunurinn hefur verið mismunandi milli bankanna, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, sem samkvæmt ársskýrslunni stafar annars vegar af mismunandi aðferðum við tekjufærslu affalla af keyptum lánasöfnum af gömlu bönkunum og hins vegar af mismunandi samsetningu eigna og skulda.

„Eftir að tekjufærslu affalla lýkur má búast við minni mun milli bankanna og að vaxtamunurinn verði um 3% að meðaltali,“ segir í skýrslunni.

Þar segir, eins og áður hefur komið fram, að vaxtamunur bankanna teljist hár í erlendum samanburði. „Eitt af því sem skiptir máli varðandi háan vaxtamun í samanburði við erlenda banka er stærðarhagkvæmni sem ekki næst fram á litlum markaði eins og á Íslandi. Þá kann einnig að skipta máli að í vaxtamuninum hjá íslensku bönkunum er innifalin tiltekin þjónusta sem er sérgreind sem þóknanatekjur hjá erlendum aðilum. Auk þess er samkeppnisstaða bankanna mjög ólík því sem er hjá erlendum bönkum.“